Viðskiptaskilmálar Málmtækni hf.
Eftirfarandi skilmálar gilda um kaup þessi á vörum og/eða þjónustu úr hendi Málmtækni hf. Fyrirspurning og athugasemdir varðandi viðskiptaskilmála má senda í tölvupósti á sala@mt.is
Þar sem skilmálum þessum sleppir gilda lög um lausafjárkaup nr. 50/2000 eða eftir atvikum lög um þjónustukaup nr. 42/2000.
Vara og þjónusta fellur undir þessa skilmála eftir að Málmtækni hefur fallist á pöntun viðskiptamanns með því að staðfesta hana með samningi eða öðrum formlegum hætti s.s. samþykktu tilboði, afhenda kaupanda vöru eða inna af hendi þjónustu.
1. Greiðsluskilmálar
Viðskiptamönnum ber að greiða reikning í samræmi við þá skilmála sem á honum eru tilgreindir. Athugasemdir við útgefna reikninga skulu berast seljanda innan 15 daga frá útgáfudegi, að öðrum kosti telst reikningurinn réttur.
Reikningar gjaldfalla þann 15. næsta mánaðar frá útgáfudegi. Eindagi er þann 20. sama mánaðar. Séu reikningar ógreiddir á eindaga reiknast hæstu lögleyfðu dráttarvextir af reikningsskuldinni frá gjalddaga reikningsins.
Seljanda er heimilt að stöðva afhendingu ef samið er um hana í áföngum, hafi greiðsla ekki borist vegna fyrri afhendinga. Stöðvun afhendingar er heimil fram að þeim tíma sem gjaldfallnar greiðslur hafa verið inntar af hendi eða lagðar fram fullnægjandi tryggingar fyrir þeim.
2. Söluveð
Kaupandi veitir seljanda söluveð í hinu keypta, sbr. lög nr. 75/1997 um samningsveð. Veðrétturinn nær til allra þeirra hluta sem greindir eru á reikningi. Veðið er til tryggingar kröfu til alls endurgjalds sem greint er á reikningnum, ásamt vöxtum og kostnaði. Sé greitt með víxlum, skuldabréfum og/eða ávísunum helst söluveðið þar til skuld samkvæmt slíku skjali er greidd.
Hluti þá sem veðsettir eru má kaupandi ekki selja, veðsetja frekar, breyta eða skeyta við aðra hluti þannig að hætta sé á að söluveðið glatist án skriflegs samþykkis seljanda.
Ef vanskil verða á greiðslu þeirra krafna sem veðrétturinn nær til, getur seljandi leitað fullnustu kröfu sinnar með því að krefjast nauðungarsölu á veðandlaginu, án undangengins dóms eða aðfarar, eða rifta söluveðsetningunni og krefjast afhendingar hins veðsetta.
3. Afhending
Afhending vöru fer fram á starfsstöð seljanda á umsömdum afhendingartíma nema um annað sé sérstaklega samið.
4. Tilboð
Tilboð í vörur sem eru ekki lagervörur miðast við gengi á tilboðsdegi og endanlegt verð verður uppfært miðað við tollgengi við afhendingu.
5. Sending
Kaupandi ber ávallt allan kostnað af sendingu vöru nema um annað sé sérstaklega samið.
6. Viðtökudráttur
Sé vara ekki sótt innan umsamins tíma áskilur seljandi sér rétt til að senda hana til kaupanda á hans kostnað eða að öðrum kosti að annast hlutinn á kostnað kaupanda með þeim hætti sem sanngjarnt er miðað við aðstæður. Getur seljandi krafist geymslu- og/eða umsýslugjalds úr hendi kaupanda vegna umönnunar vöru eftir umsaminn afhendingartíma.
7. Áhættuskipti
Kaupandi ber ábyrgð á vöru frá því tímamarki sem hún er honum afhent eða hún er afhent flytjanda ef um sendingu er að ræða, nema um annað sé sérstaklega samið.
8. Afhendingardráttur
Verði dráttur á afhendingu vörunnar til kaupanda vegna aðstæðna sem seljandi fær ekki við ráðið (force majeure) ber seljandi ekki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem verða kann vegna afhendingardráttarins. Hið sama á við verði afhendingardráttur á vöru vegna þess að hún kemur seint eða gölluð frá erlendum birgjum.
9. Vöruskil
Vöru er einungis hægt að skila ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt.
- Varan er í sama ástandi og við afhendingu og án sjáanlegra skemmda.
- Ekki er búið að vinna vöruna á nokkurn hátt.
- Innan við 15 dagar eru frá afhendingu vörunnar.
- Varan er ekki sérpöntuð.
Við vöruskil fær kaupandi inneignarnótu frá seljanda fyrir andvirði vörunnar. Kostnaður af vöruskilum vegna atvika er varða kaupanda eru dregin frá inneignarfjárhæðinni. Ekki kemur til endurgreiðslu af hálfu seljanda við vöruskil.
Seljandi leggur áherslu á að vara sé skoðuð þegar við móttöku. Vöru fæst skilað gegn endurgreiðslu ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
- Varan er sannanlega gölluð.
- Skriflegar athugasemdir um galla hafa komið fram án ástæðulauss dráttar.
10. Afpöntun
Kaupanda er óheimilt að afpanta vöru ef um sérpöntun er að ræða nema gegn því að greiða seljanda allt það tjón sem hann verður fyrir vegna afpöntunarinnar, þ.m.t. útlagðan kostnað, geymslurými o.s.fv.
11. Ábyrgð og ábyrgðartakmarkanir
Ábyrgðartími telst frá dagsetningu reiknings, eða frá dagsetningu afhendingartíma ef sá tími er sannanlega fyrir útgáfu reiknings. Sé um neytendakaup að ræða gilda reglur laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 um ábyrgðartíma vegna vegna galla. Sé um kaup vegna atvinnustarfsemi er að ræða er ábyrgðartími 12 mánuðir. Ábyrgð seljanda verður ekki virk nema með afhendingu ábyrgðarskírteinis (reiknings).
Ef í ljós kemur á ábyrgðartíma að vara sé haldin framleiðslu- og/eða efnisgalla hefur seljandi heimild til að bæta á eigin kostnað úr gallanum með öflun varahluta og/eða viðgerð. Kaupandi ber sjálfur ábyrgð á kostnaði við að flytja vöru til viðgerðar.
Kaupandi á engar kröfur á hendur seljanda vegna eiginleika hins keypta sem hann varð var við eða mátti verða var við við kaupin.
Seljandi ber enga ábyrgð á afleiddu tjóni vegna galla eða bilunar vöru á ábyrgðartímanum. Þá ber seljandi ekki ábyrgð á afleiddu tjóni sem verða kanna af notkun vörunnar.
Ábyrgð á seldri vöru fellur niður ef:
- Verksmiðjunúmer hefur verið fjarlægt.
- Tjón verður sem stafar af rangri meðferð, misnotkun eða öðrum atvikum sem rakin verða til kaupanda (eða til aðila sem hann ber ábyrgð á).
- Um eðlilegt slit vegna notkunar vöru er að ræða.
- Viðgerð eða tilraun til viðgerðar hefur átt sér stað án aðkomu starfsmanna seljanda.
Að öðru leyti en því sem að ofan greinir undanþiggur seljandi sig ábyrgð á seldum vörum að því marki sem lög heimila.
12. Skaðsemisábyrgð
Um skaðsemisábyrgð fer eftir lögum nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Seljandi undanþiggur sig ábyrgð af slíku tjóni að því marki sem þau lög leyfa.